Íslenski boltinn

Willum: Marel er í stuði

Smári Jökull Jónsson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Vals.

Valsmenn unnu dýrmætan sigur í Laugardal í kvöld þegar þeir báru sigurorð af Fram eftir að heimamenn höfðu náð forystunni snemma í leiknum.

Willum Þór Þórsson þjálfari Vals var auðvitað ánægður með sigurinn. "Það sem gerði okkur erfitt fyrir var að þeir ná forskoti því þá eru þeir erfiðari viðureignar. En sem betur fer náðum við að jafna fyrir hálfleik sem skipti miklu máli því það gaf okkur trú. Í seinni hálfleik fannst mér við leika vel, berjast sem einn maður og skora gott mark," sagði Willum í samtali við Vísi að leik loknum.

"Við nýttum okkur það að Framararnir komu framar á völlinn í síðari hálfleik og þá fengum við meira pláss til að spila. Við ætluðum okkur að halda boltanum vel í golunni og mér fannst það takast vel," bætti Willum við.

Marel Baldvinsson skoraði sigurmark Vals með skalla eftir frábæra sendingu frá Ólafi Páli Snorrasyni. Willum var ánægður með framlag Marels. "Marel er auðvitað í stuði og hann er okkur gríðarlega mikilvægur. Hann er með hverjum leiknum að nýtast okkur betur, hann hefur vissulega leikið vel í öllum leikjunum en við erum að átta okkur betur á því hvernig við nýtum hans hæfileika og liðið er að spila betur samkvæmt því," sagði Willum um Marel.

Kjartan Sturluson var settur á bekkinn fyrir leikinn í kvöld eftir að hafa gert afdrifarík mistök í fyrstu leikjum Vals í sumar og kom hinn efnilegi Haraldur Björnsson inn í liðið í hans stað. Willum sagði að hann myndi halda sæti sínu í næsta leik.

"Hann mun halda sæti sínu og ég held hann hafi sýnt í dag hversu efnilegur markvörður hann er. Kjartan steig til hliðar og studdi hann inn í þennan leik og tók þátt í að undirbúa hann. Kjartan hefur þjónað okkur geysilega vel en það var einfaldlega kominn upp sú staða að strákurinn fengi tækifæri og við erum í fyrsta skipti í þeirri stöðu að hafa tvo mjög öfluga markverði."

Aðspurður hvort Kjartan hefði spilað sig út úr liðinu sagði Willum. "Hann er auðvitað búinn að fá á sig mjög erfið mörk og umræðan verið ósanngjörn alveg síðan í haust þegar hann spilaði með landsliðinu og hrökklaðist út úr því. Það hefur verið erfitt fyrir hann en hann er mjög öflugur markvörður og það er nóg eftir hjá honum," sagði Willum að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×