Erlent

Óheimilt að loka mörkuðum

Öryggisvörður við Alþjóðlegu viðskiptamiðstöðina í Peking.
Mynd/AFP
Öryggisvörður við Alþjóðlegu viðskiptamiðstöðina í Peking. Mynd/AFP

Samkvæmt úrskurði Heimsviðskiptastofnunarinnar WTO mega kínversk stjórnvöld ekki banna bandarískum afþreyingarfyrirtækjum að eiga viðskipti beint við einstaklinga og einkafyrirtæki í Kína.

Kínversk stjórnvöld hafa til þessa krafist þess að bandarískir framleiðendur tónlistar og myndefnis skipti eingöngu við kínversk ríkisfyrirtæki.

Samkvæmt úrskurðinum brýtur slíkt í bága við reglur um alþjóðaviðskipti. Kínverjum er þó áfram heimilt að ritskoða það efni sem berst til landsins.

Úrskurðurinn var felldur í síðasta mánuði, en var ekki gerður opinber fyrr en í gær.

Tímasetningin þykir heppileg fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta, sem er undir vaxandi þrýstingi um að sýna Kínverjum meiri hörku í viðskiptamálum.

Óvíst er þó hvaða afleiðingar dómurinn hefur. Þótt Kínastjórn leggi sjálf mikla áherslu á að fylgja reglum Heimsviðskiptastofnunarinnar gæti hún sem hægast sett nýjar reglur um opinbert eftirlit með erlendu menningarefni, sem þurfi að samþykkjast sérstaklega áður en innflutningur er leyfður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×