Innlent

VG kom í veg fyrir nýja viljayfirlýsingu

Viljayfirlýsing um álver á Bakka við Húsavík rennur út um mánaðamótin.  fréttablaðið/gva
Viljayfirlýsing um álver á Bakka við Húsavík rennur út um mánaðamótin. fréttablaðið/gva

Tillaga iðnaðarráðherra um framlengingu viljayfirlýsingar vegna byggingar álvers á Bakka fékkst ekki afgreidd á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Vegna andstöðu ráðherra Vinstri grænna var tillagan ekki samþykkt heldur vísað til meðferðar í sérstakri ráðherranefnd um orkumál. Sú nefnd var sett á laggirnar á þriðjudag til að fjalla um málið og einnig þau verkefni á sviði orkumála sem tengjast Stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila á vinnumarkaði.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, voru skipuð í ráðherranefndina. Katrín er erlendis um þessar mundir og tók Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sæti í nefndinni sem starfandi iðnaðarráðherra. Nefndin hittist þannig skipuð á fimmtudag, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, fór yfir málið en komst ekki að niðurstöðu.

Viljayfirlýsingin um álver við Bakka á að renna út um næstu mánaðamót.

Í stöðugleikasáttmálanum svonefnda segir að ríkisstjórnin muni greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, svo sem álvera í Helguvík og Straumsvík, auk þess að hraða undirbúningi áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, svo sem gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. „Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009,“ segir í sáttmálanum.

Í sáttmálanum er ekki vikið að álveri við Bakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×