Íslenski boltinn

Guðmundur: Óli Þórðar hefur barið liðsanda í Fylki

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðmundur í leik með Keflavík í fyrra. Mynd/Auðunn
Guðmundur í leik með Keflavík í fyrra. Mynd/Auðunn

„Það er mikill léttir að allt þetta sé að baki og maður geti farið að einbeita sér alfarið að Keflavík," segir Guðmundur Steinarsson sem hefur loksins fengið leikheimild með Keflvíkingum og spilar í kvöld gegn Fylki.

Illa gekk hjá Guðmundi að fá undirskrift frá Liechtenstein þar sem hann lék með liði Vaduz í vetur. En nú hefur það loks tekist og Guðmundur, sem var valinn besti leikmaður efstu deildar í fyrra, orðinn löglegur.

„Það er alltaf gaman að spila og mér lýst ljómandi vel á þennan leik í kvöld. Svo er gaman að byrja á heimavelli og það gefur þessu smá auka. Stuðningurinn verður á okkar bandi og það er alltaf gaman að klæðast Keflavíkurbúningnum," segir Guðmundur.

Fylkisliðið hefur komið á óvart í sumar og situr í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar og býst Guðmundur við mjög erfiðum leik. „Þeir eru í öðrum málum en á síðasta tímabili og þar er því fyrst og fremst að þakka að Óla Þórðar hefur tekist að berja liðsanda í þetta lið," segir Guðmundur.

„Leikmenn þeirra eru að vinna óhemju mikla vinnu á vellinum, þeir hlaupa mikið og berjast. Við verðum að vera klárir í það í kvöld."

Guðmundur var á skotskónum gegn Fylki í fyrra og skoraði í báðum leikjum Keflavíkur gegn þeim. Hann skoraði tvö í 3-3 jafntefli á Árbæjarvelli og svo sigurmarkið í 2-1 sigri Keflavíkur á heimavelli.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, hefur ekki tilkynnt byrjunarliðið fyrir kvöldið. „Ég mæti bara eins og hver annar leikmaður og sé hvort ég byrji eða ekki," sagði Guðmundur. Leikur Keflavíkur og Fylkis hefst klukkan 19:15 og verður fylgst með gangi mála í honum á Boltavakt Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×