Lífið

Arnþrúður og Jónína grafa stríðsöxina á Útvarpi Sögu

arnþrúður karlsdóttir
Ætlar í detox hjá dagskrárgerðarmanni sínum, Jónínu.
arnþrúður karlsdóttir Ætlar í detox hjá dagskrárgerðarmanni sínum, Jónínu.

„Ég er fyrst og fremst ánægð með hversu þættirnir eru góðir hjá henni. Þetta er bráðsniðug og skemmtileg nýjung [detox] sem hún hefur komið með til landsins. Mér veitti ekki af því. Já, ég reikna frekar með því að fara í detox,“ segir útvarpsstjórinn Arnþrúður Karlsdóttir á Sögu.

Jónína Benediktsdóttir heilsufrömuður er með þætti á Sögu á föstudögum eftir hádegi og fjalla þeir um lífsstíl og sjúkdómatengdan lífsstíl, lyf og leiðir til að ná heilsu. Hlustendur geta hringt í þáttinn og segir Arnþrúður þá nýta sér það. Þetta væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að Arnþrúður og Jónína voru miklar vinkonur en það slettist harkalega upp á vinskapinn og komst ágreiningur þeirra í hámæli. Arnþrúður segir stríðsöxina nú grafna.

„Jájájá, við höfum gaman af að hrekkja hvor aðra. Við vorum bara að rífast út af tilteknu máli. Ég var ósátt við hvernig lögreglan var notuð, með stórum staf, í Baugsmálinu. Sem fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður ofbauð mér það. Jónína hafði aðrar skoðanir á því,“ segir Arnþrúður og bætir við að allt þetta sé fyndið þegar litið er til baka.

Að sögn Jónínu hefur reynsla hennar undanfarin 26 ár sem íþróttafræðingur, leiðbeinandi og brautryðjandi á sviði heilsuræktar verið mikill skóli sem nýtist nú í dagskrárgerðinni.

„Og í samstarfi við lækna stunda ég detox-hreinsun á þremur stöðum; í Póllandi, Reykjanesi og í Mývatnssveit yfir vetrartímann.

Ekki er um óhefðbundnar læknisaðferðir að ræða eins og vankunnugir halda fram heldur hreinsun eða föstu í samráði við lækna.“

- jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.