Innlent

Sýknuð af ákæru um umboðssvik

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Hæstiréttur sýknaði í dag karlmann sem hafði verið dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir umboðsvik. Héraðsdómur hafi fundið manninn sekan um að hafa misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í Netbanka Glitnis.

Mistök starfsmanns bankans urðu til þess að kaup-og sölugengi víxlaðist og var þannig hægt að hagnast gríðarlega með kaupum og sölu á dollurum og evrum. Í dómi Héraðsdóms kom fram að maðurinn hefði nýtt sér þessa villu og hagnast um 24 milljónir. Maðurinn var dæmdur í níu mánaða fangelsi í Héraðsdómi en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafi ekki misnotað einhliða aðgang sinn að netbankanum við gjaldeyrisviðskiptin og verði háttsemi hans því ekki heimfærð undir grein almennra hegningalaga um umboðssvik. Því bæri að sýkna manninn af þeim sakargiftum, en hann hafi ekki verið borinn sökum um fjársvik.

Þá var kona, sem dæmd var í Héraðsdómi Norðurlands eystra í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir umboðssvik, með því að hafa hagnast um tæpar 350 þúsund krónur með sama hætti og fyrrnefndur karlmaður, einnig sýknuð í Hæstarétti á sömu forsendum og karlmaðurinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×