Enski boltinn

Terry getur líklega spilað á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry, leikmaður Chelsea.
John Terry, leikmaður Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, á von á því að fyrirliðinn og varnaramaðurinn John Terry verði orðinn leikfær fyrir leik liðsins gegn Apoel Nicosia í Meistaradeild Evrópu annað kvöld.

Terry haltraði af velli þegar að Chelsea tapaði fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina, 2-1.

Í fyrstu var óttast að Terry myndi vera lengi frá vegna meiðslanna en þau eru þó ekki það alvarleg, segir Ancelotti.

„Við sjáum til hvernig hann verður eftir æfingar en ég held að John Terry geti spilað á morgun," sagði Ancelotti við enska fjölmiðla.

„Við þurfum líka að bíða og sjá til hvernig þeir Michael Ballack og Ashley Cole verða," bætti hann við.

Chelsea hefur þegar tryggt sér sigur í riðlinum og mætti þess vegna tapa leiknum á morgun. En Ancelotti ætlar samt að stilla upp sínu sterkasta liði í leiknum.

„Ég tel það mikilvægt að tefla fram besta mögulega liðinu í Evrópuleik," sagði Ancelotti. „Ég vil stjórna leiknum og mun nota leikmannahópinn eins vel og ég mögulega get."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×