Innlent

AGS tortryggir lausn á jöklabréfavanda

Sumir þeirra sem taldir eru til erlendra eigenda krónubréfa eða annarra innistæðna hér á landi gætu í raun verið íslenskir viðskiptamenn í gegnum erlend félög, sagði Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi í gær.
Fréttablaðið/Pjetur
Sumir þeirra sem taldir eru til erlendra eigenda krónubréfa eða annarra innistæðna hér á landi gætu í raun verið íslenskir viðskiptamenn í gegnum erlend félög, sagði Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi í gær. Fréttablaðið/Pjetur

Efnahagsmál Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) telja að verði erlendum eigendum jöklabréfa og hliðstæðra eigna á Íslandi boðin skipti á til dæmis erlendum eignum lífeyrissjóða gæti það talist brot á yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til sjóðsins.

Þetta er önnur þeirra leiða sem nefndar hafa verið til að losa um eignir erlendra aðila hér á landi til að hægt verði að aflétta gjaldeyris-höftum án þess að gengi krónunnar hrynji, segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Fulltrúar AGS hafa verið afar tortryggnir á þá leið og telja að með þessu væri verið að taka upp tvöfalt gengi á íslensku krónunni. Í yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til sjóðsins frá 15. nóvember 2008 er því lýst yfir að ekki verði tekið upp tvöfalt gengi.

Hin leiðin sem nefnd hefur verið er að bjóða upp á skuldabréf sem hægt verði að skipta í evrur á gjalddaga. Hvorugri leiðinni hefur verið hrint í framkvæmd.

Jóhanna S. Bjarnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði viðskiptaráðherra um stöðu jöklabréfa í gær. Spurði hún bæði um þær upphæðir sem væri um að tefla, og hvað væri verið að gera til að koma í veg fyrir gjaldeyrisflótta þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt.

„Því miður liggur ekki fyrir hver upphæðin í raun og veru er, enda er í raun og veru stundum dálítið erfitt að greina á milli erlendra og innlendra aðila, því að sumir þeirra sem eru á pappírnum erlendir, eru nú kannski grunsamlega íslenskir þegar nánar er að gáð,“ sagði Gylfi á Alþingi.

Í samtali við Fréttablaðið segist hann hafa verið að vísa í eigur erlendra eignarhaldsfélaga í eigu íslenskra aðila. Sennilegast sé þó að meirihluti eignanna sé í raun í eigu erlendra aðila. Það skipti þó ekki höfuðmáli, þar sem líklegt sé að bæði íslenskir og erlendir fjármagnseigendur vilji koma fé sínu úr krónum í evrur.

Gylfi segir einu leiðina til að átta sig almennilega á umfanginu að bjóða þessum fjármagnseigendum leið út úr þröngri stöðu og sjá hver áhuginn verði.

Svein Harald Øygard seðlabankastjóri sagði í viðtali við Fréttablaðið nýverið að ekki gangi að afnema gjaldeyrishöftin þegar vaxtalækkunarferli Seðlabankans sé komið af stað.

Gylfi segir æskilegt að hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin sem fyrst, en vill ekki leggja mat á hvort áherslur Seðlabankans séu heppilegar. brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×