Innlent

Kúabændur uggandi

Kúabóndi á Suðurlandi segist uggandi um stöðu landbúnaðarins, enda sé ekkert vitað hvað morgundagurinn muni bera í skauti sér. Skuldir hans hafa tvöfaldast og segir hann allt undir ef ekki fæst leiðrétting, bæði heimili fjölskyldunnar og ævistarfið.

Þungt hljóð er í mörgum bændum enda hefur slæmt efnahagsástand haft veruleg áhrif á landbúnaðinn. Tíundi hver kúabóndi er í verulegum greiðsluerfiðleikum. Ábúendur á Vorsabæ í Landeyjum eru þar á meðal. Þar er þó engan uppgjafartón að merkja, einasta ósk hjónanna sem þar búa er að fá leiðréttingu á skuldum og skýr svör frá stjórnvöldum um aðgerðir. Þau eru þó uggandi um sinn hag.

„Já, við erum uggandi eins og stór hluti þjóðarinnar sem er í sömu stöðu og við. Hvort sem það eru bændur, af höfuðborgarsvæðinu eða annarsstaðar af landinu. Staðan er þannig að við hvað morgundagurinn ber í skauti sér," segir Björgvin Guðmundsson bóndi Vorsabæ í Landeyjum.

Árið 2006 réðust hjónin í að byggja nýtt tæknivætt fjós - draumurinn var að hagræða og stækka búið. Hófs var gætt og fjölskylda, vinir og nágrannar hjálpuðust að við að reisa bygginguna. Tekið var erlent lán - enda reksturinn góður - og allar áætlanir gengu eftir, þar til bankarnir hrundu. Skuldirnar hafa rúmlega tvöfaldast.

„Við fengum frystingu á höfuðstólnum en höfum borgað vextina," segir Björgvin.

Ef ekki rætist úr gætu hjónin á Vorsabæ í versta falli þurft að bregða búi.


Tengdar fréttir

Tíundi hver kúabóndi í verulegum vanda

Um 10% kúabænda eru í verulegum vanda staddir vegna mikillar skuldsetningar. Aukin harka er hjá fjármögnunarfyrirtækjum að sækja tæki og vélar vegna gríðarlegra skulda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×