Innlent

Tíundi hver kúabóndi í verulegum vanda

Um 10% kúabænda eru í verulegum vanda staddir vegna mikillar skuldsetningar. Aukin harka er hjá fjármögnunarfyrirtækjum að sækja tæki og vélar vegna gríðarlegra skulda.

Foystumenn í Bændasamtökum Íslands funduðu í Bændahöllinni í dag, en þar var farið yfir stöðuna í landbúnaðinum. Hún er langt frá því að vera góð og er sögð fara versnandi. Farið er að bera á lausafjárþurrð og jafnvel er gengið á eignir bænda til að innheimta skuldir.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir farið að bera á nauðungarsöluauglýsingum. „Við verðum varir við aukna hörku fjármögnunarleigufyrirtækja við að taka tæki sem þau hafa lánað í og leigt. Mörg teikn um að farið sé að herða að."

Spurður hvort að staðan sé dökk segir Haraldur: „Já, hjá bændum eins og hjá mörgum öðrum í þessu þjóðfélagi."

Staðan hjá kúabændum er einkum slæm. Um 10% þeirra eru í verulegum erfiðleikum, en á bak við þær tölur getur verið um 15 til 20% af framleiðslunni. En aðrar greinar eru einnig í vanda staddar.

„Sauðfjárbændur hafa litla eða mjög lága innkomu og getur brugðið til beggja vona þegar forsendur þar breytast ," segir Haraldur.

Lögð er áhersla á að bændur fái að njóta sömu úrræða og aðrir til að taka á greiðsluvanda sínum, svo unnt sé að koma búunum á réttan kjöl. Staðan er hins vegar viðkvæmari í sveitum landsins að því leytinu til að búin er í senn heimili og fyrirtæki bænda. En það er ljós í myrkrinu.

„Þessar útflutningsgreinar okkar eru að skila meiri verðmætum og almennt er landbúnaðurinn samkeppnishæfari eftir breytingar á genginu og það eru líka sóknarfæri," segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×