Innlent

Nauðsynlegt að tryggja réttarstöðu kynskiptinga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umboðsmaður Alþingis mælist til þess að lögum um mannanöfn verði breytt og að sett verði lög til að tryggja réttarstöðu fólks með kynskiptahneigð.

Forsaga málsins er sú að kona, sem áður var karl, óskaði eftir því við dómsmálaráðuneytið að hún fengi að breyta nafninu sínu úr karlmannsnafni í kvenmannsnafn. Ástæðan væri sú að hún hefði hafið kynskiptameðferð og lifði nú sem kona þó að hún hefði fæðst sem karl.

Ráðuneytið synjaði hins vegar beiðni konunnar á þeirri forsendu að kynskiptaaðgerð á viðkomandi einstakling væri ekki lokið. Ráðuneytið sagði að ekki væri hægt að breyta nafninu fyrr en Landlæknir hefði staðfest að búið væri að skipta um kyn. Landlæknir sagði hins vegar að ekki þyrfti að miða kynskiptin við þann tímapunkt þegar kynskiptaaðgerðin sjálf fer fram heldur mætti miða við þann tíma þegar hormónameðferð væri lokið. Á þessum forsendum gat dómsmálaráðuneytið breytt afstöðu sinni gagnvart beiðni konunnar og heimilað henni að skipta um nafn.

Umboðsmaður beindi hins vegar þeim tilmælum til forseta Alþingis, dómsmálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins að hugað verði að löggjöf um réttarstöðu fólks með kynskiptahneigð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×