Erlent

Nefndarformaður dregur ummæli um e-töflur til baka

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Yfirmaður bresku ráðgjafanefndarinnar um fíkniefnaneyslu hefur beðist opinberlega afsökunar á þeim ummælum sínum að hættulegra væri að fara á hestbak en neyta e-taflna.

David Nutt er prófessor í taugasálfræði lyfja við Imperial College í London auk þess að fara fyrir ráðgjafanefndinni. Í grein sem hann skrifaði í fagtímaritið Journal of Psychopharmacology benti hann á að tíu manns létust ár hvert í slysum tengdum hestamennsku sem hann nefndi equasy í höfuðið á latínunni equus sem táknar hross.

Leiddi Nutt með þessu líkur að því að taka mætti hestamennsku, equasy, inn í bresku fíkniefnalöggjöfina enda væri hún sýnu hættulegri en e-töflur eða ecstacy. Hlutfallslega dæju notendur ecstacy mun sjaldnar af neyslunni en hestamenn við sínar athafnir eða í einu tilfelli af 10.000 á móti einu af 350. Það væri því mikill tvískinnungur að banna e-töflur en leyfa stórhættulega tómstundaiðju á borð við hestamennsku.

Innanríkisráðherrann Jacqui Smith henti þessi ummæli prófessor Nutt á lofti og vísaði þeim aftur til föðurhúsanna ásamt skömm í hatt Nutts sem baðst afsökunar á skrifum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×