Innlent

Fjórar nýjar ráðherranefndir

Hlutverk forsætisráðuneytisins mun breytast í átt til þess sem er hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.
fréttablaðið/gva
Hlutverk forsætisráðuneytisins mun breytast í átt til þess sem er hjá hinum Norðurlandaþjóðunum. fréttablaðið/gva

Fjórar ráðherranefndir munu starfa innan forsætisráðuneytisins eftir endurskipulagningu innan stjórnkerfisins sem nú stendur yfir. Stofnaðar verða ráðherranefndir um efnahagsmál og ríkisfjármál til viðbótar við ráðherranefndir um Evrópu- og jafnréttismál sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag.

Eins og kunnugt er verður nýtt efnahags- og viðskiptaráðuneyti til um næstu mánaðamót og er ljóst að forsætisráðuneytið mun þá taka umtalsverðum breytingum. Seðlabankinn og Hagstofan færist til nýs efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Norðurlandaskrifstofan flyst til utanríkisráðuneytisins og ýmis menningarverkefni til menntamálaráðuneytisins.

Hins vegar hafa verið settar á fót í forsætisráðuneytinu ráðherranefndir um Evrópumál og jafnréttismál auk þess sem verið er að skoða að festa frekar í sessi fastar ráðherranefndir sem fjalla um efnahags- og ríkisfjármál allt árið um kring. Með þeim breytingum mun skipulag fjármálaráðuneytisins færast að mörgu leyti til þess horfs sem gerist í Danmörku.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, sagði á málþingi um skipulagsbreytingar á stjórnkerfinu í gær að öll ráðuneyti séu að skoða sín svið með tilliti til sameiningar eða samræmingar á verkefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×