Enski boltinn

Given fengi 100 þúsund pund á viku hjá City

Shay Given hefur verið einn besti markvörður úrvalsdeildarinnar síðasta áratug
Shay Given hefur verið einn besti markvörður úrvalsdeildarinnar síðasta áratug NordicPhotos/GettyImages

Breska blaðið Daily Star fullyrðir að írski markvörðurinn Shay Given hjá Newcastle hafi samþykkt að ganga í raðir Manchester City og því eigi félagið aðeins eftir að semja um kaupverð á honum frá Newcastle.

Given er 32 ára gamall og hefur verið hjá Newcastle í tólf ár. Blaðið segir að City sé tilbúið að greiða fyrir hann 10 milljónir punda, en það myndi gera hann að dýrasta markverði í sögu úrvalsdeildar - milljón dýrari en Craig Gordon sem kostaði Sunderland 9 milljónir punda á sínum tíma.

Newcastle er þó skiljanlega ekki á þeim buxunum að missa markvörðinn sinn sterka og heimtar 14 milljónir punda fyrir hann að sögn Daily Star, sem vitnar í vin markvarðarins í fréttinni.

Blaðið segir að ef hann samþykki að fara til City verði honum boðinn þriggja til fjögurra ára samningur sem muni tryggja honum 100 þúsund pund í vikulaun. Það yrði tvöföldun á vikulaunum hans hjá Newcastle.

Það sem hleypti þessari frétt af stað upphaflega var meintur áhugi Newcastle á að fá fyrrum landsliðsmarkvörðinn David James frá Portsmouth, en honum yrði þá ætlað að fylla skarð Given ef hann færi til Manchester.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×