Enski boltinn

Aron ekki í byrjunarliði Coventry á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry.
Aron Einar Gunnarsson í leik með Coventry. Nordic Photos / Getty Images

Aron Einar Gunnarsson verður ekki í byrjunarliði Coventry sem mætir Reading í Íslendingaslag í ensku B-deildinni á morgun.

Aron Einar meiddist í leik gegn Sheffield Wednesday fyrir tveimur vikum. Í fyrstu var óttast að hann hefði fótbrotnað en meiðslin voru sem betur fer ekki það alvarleg.

Chris Coleman, stjóri Coventry, sagði í samtali við enska fjölmiðla í vikunni að Aron væri ekki orðinn nægilega heill til að hann gæti spilað allan leikinn en möguleiki er á því að hann komi inn á sem varamaður.

Ívar Ingimarsson tók út leikbann í síðasta leik Reading og snýr því aftur í byrjunarliðið á morgun. Brynjar Björn Gunnarsson og Gylfi Þór Sigurðsson verða væntanlega einnig í leikmannahópi liðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×