Íslenski boltinn

Logi: Það er gríðarlega góður liðsandi í KR

Ómar Þorgeirsson skrifar
Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. Mynd/Daníel

„Ég er náttúrulega fyrst og síðast ánægður með sigurinn. Mér fannst við ekki vera að spila nægilega vel í fyrri hálfleik og vorum þá ónákvæmir í flestum okkar aðgerðum en það lagaðist í seinni hálfleik.

Þá fórum við að nýta breidd vallarins betur og mér fannst við í raun vaxa eftir því sem á leikinn leið," segir kampakátur Logi Ólafsson þjálfari KR í leikslok á Vodafonevellinum í kvöld eftir 1-3 sigur KR gegn Val.

KR-ingar hafa verið undir miklu leikjaálagi síðustu vikur út af þátttöku sinni í Evrópudeild UEFA en Logi kvartar ekki undan því.

„Ég átti von á því að þetta yrði svona smá þrekraun fyrir okkur þar sem Valsmenn voru búnir að fá meiri hvíld en við og í ljósi þess finnst mér þetta enn meira afrek hjá okkur. Strákarnir eru annars í góðu líkamlegu ásigkomulagi og þeir sýndu það í kvöld.

Það er líka gríðarlega góður liðsandi hjá liðinu og það hefur sitt að segja í þessu líka og er afar jákvætt. Það er gríðarlega mikilvægt að komast áfram í þessarri keppni ekki síst út af því að FH er með góða forystu í deildinni. Við erum því enn með í bikarnum og enn með í Evrópudeild UEFA og það heldur okkur gangandi ásamt því að berjast áfram í deildinni," segir Logi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×