Innlent

Um 42% kvenna sæta ofbeldi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður, félags- og tryggingamálaráðherra, segir mikilvægt að þekkja staðreyndir að baki heimilisofbeldi svo hægt sé að efla hjálparaðgerðir.
Ásta Ragnheiður, félags- og tryggingamálaráðherra, segir mikilvægt að þekkja staðreyndir að baki heimilisofbeldi svo hægt sé að efla hjálparaðgerðir.

Um 42% kvenna á Íslandi hafa sætt ofbeldi einhvern tíma á ævinni frá 16 ára aldri. Með ofbeldi er átt við líkamlegt ofbeldi, hótanir og kynferðislega snertingu sem veldur mikilli vanlíðan. Ætla má að um 2.400 konur hafi verið beittar líkamlegu ofbeldi á síðustu 12 mánuðum. Rúm 60% kvennanna sem beittar voru ofbeldi töldu gerandann hafa verið undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða lyfja.

Þetta kemur fram í viðamikilli könnun á ofbeldi karla gegn konum sem félags- og tryggingamálaráðuneytið fól Rannsóknarsetri í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands að gera. Rannsóknin er hluti af aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Tekið var 3000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá meðal kvenna á aldrinum 18-80 ára og rætt við þær í síma í september-desember 2008. Svarhlutfall var 68%.

Ásta R. Jóhannesdóttir, félags og tryggingamálaráðherra segir að heimilisofbeldi sé óhugnanleg birtingamynd kúgunar og valdbeitingar. Forsenda þess að hægt sé ná árangri í baráttunni gegn ofbeldi karla gegn konum sé að þekkja staðreyndir að baki svo hægt sé að efla hjálparaðgerðir. Rannsóknin nú sé mikilvægur liður í þeirri baráttu því ofbeldi sé ekki hægt að líða og gegn því verði að berjast með öllum ráðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×