Innlent

Flestir vilja Bjarna

Mikill meirihluti vill að Bjarni Benediktsson verði formaður Sjálfstæðisflokksins samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Guðlaugur Þór fengi aftur á móti fæst atkvæði af þeim sem nefndir voru.

Nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verður kjörinn á landsfundi síðustu helgina í mars. Bjarni Benediktsson er sá eini sem hefur gefið kost á sér og verður að teljast líklegastur sem næsti formaður flokksins ef marka má nýja skoðanakönnun sem fréttastofa stöðvar 2 og Fréttablaðið létu gera.

Bjarni fengi rúmlega 44% atkvæða en Þorgerður Katrín, varaformaður, fengi tæp 30%. Aðrir sem fréttastofa nefndi sem mögulega formenn voru Kristján Þór Júlíusson, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri og Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra sem fengi tæplega 4 prósent atkvæða og var lægstur af þeim sem nefndir voru. Rúm 9% vildu sjá aðra en þessa sem formenn og fékk Illugi Gunnarsson þar flest atkvæði eða 5,5%

Þá virðast fleiri karlar vilja Bjarni sem næsta formann, eða rúm 50%. Sé hinsvegar litið á atkvæði kvenna þá fengi Þorgerður Katrín flest, eða rúm 40%.

Þegar atkvæðunum er skipt eftir stjórnmálaflokkum eru það aðeins kjósendur Samfylkingarinnar sem vilja heldur sjá Þorgerði Katrínu sem formann en Bjarna. Kjósendur Framsóknar og Vinstri grænna gáfu Guðlaugi Þór ekkert atkvæði og vildu heldur sjá aðra leiða listann. Illugi var þar oftast nefndur.

Niðurstaðan byggist á 800 svörum sem skiptist jafn á milli karla og kvenna og hlutfallslega eftir búsetu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×