Fótbolti

Ólafur: Leikurinn nýtist mér mjög vel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari í knattspyrnu valdi í dag leikmannahópinn fyrir leik Íslands gegn Færeyjum í Kórnum þann 22. mars næstkomandi.

„Ég ákvað að horfa frekar til yngru leikmennina hér heima þegar ég valdi hópinn," sagði Ólafur. „Annars reyndi ég bara að velja þá bestu."

Þar sem leikurinn fer ekki fram á alþjóðlegum leikdegi getur Ólafur ekki valið þá leikmenn sem leika erlendis en fékk þó leyfi hjá þremur félögum til að sækja leikmenn í landsliðið.

„Það var auðsótt að fá leyfi hjá þessum félögum. Rúrik er í banni hjá Viborg í Danmörku einmitt þessa helgi og Jóhann Berg er utan aðalliðsins hjá AZ Alkmaar í Hollandi. Þá er GAIS (frá Svíþjóð) í fríi þessa helgi og því gátu þeir Guðmundur Reynir, Eyjólfur og Guðjón komið í leikinn."

Hann valdi átta nýliða í hópinn að þessu sinni. „Ég hefði vissulega getað valið aðra leikmenn enda margir sem hafa verið að standa sig vel. En þetta er hópurinn sem ég valdi að þessu sinni."

Þetta er í annað árið röð sem Ísland mætir Færeyjum í æfingaleik í Kórnum og segir Ólafur að leikurinn komi til með að nýtast honum vel.

„Bæði fæ ég að kynnast þessum strákum betur og þeir fá þá að kynnast landsliðinu. Ég mun til að mynda nota sömu leikaðferð og ég geri í öðrum leikjum og fá þeir því að kynnast því."

„Ef þeir verða svo kallaðir í landsliðið síðar hafa þeir þá betri hugmynd um við hverju þeir mega búast."

„Ég tel þetta gott fyrirkomulag. Ég hef alla vega lagt hart að því að fá þennan leik hjá Knattspyrnusambandinu og það hefur mætt góðum skilningi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×