Fótbolti

Ólína: Varnarleikurinn verður númer eitt, tvö og þrjú

Óskar Ófeigur Jónsson í Tampere skrifar
Ólína með Margréti Láru Viðarsdóttur og Dóru Stefánsdóttir.
Ólína með Margréti Láru Viðarsdóttur og Dóru Stefánsdóttir. Mynd/ÓskarÓ
Það mun reyna mikið á Ólínu Guðbjörgu Viðarsdóttur, vinstri bakvörð íslenska kvennalandsliðsins, á móti Frökkum í kvöld. Ólína fær væntanlega það hlutverk að reyna að stoppa Élodie Thomis, eldfljótan sóknarkantman Frakka sem hefur verið líkt við Thierry Henry.

„Ef hún er í sömu stöðu og ég fæ að spila þá verður maður að dekka hana og reyna að pakka henni saman. Ég man vel eftir henni og er líka búin að horfa á leikinn aftur," sagði Ólína áður en Sigurður Ragnar hafði tilkynnt byrjunarliðið sitt. Thomis spilar í treyju númer 12 en hún er 23 ára gömul og spilar með frönsku meisturunum í Olympique Lyonnais.

Ólína stóð sig vel á móti Thomis í síðasta leik þjóðanna en þar vildi hún fá meira út úr leiknum. „Við áttum fullt af færum í síðasta leik á móti þeim sem er bara gott veganesti inn í þennan leik því að við vitum að við getum sótt á þær. Ef þorum að halda boltanum og spila fótbolta þá erum við mjög góðar í því. Við þurfum að hafa trú á því frá byrjun," segir Ólína.

Íslenska liðið ætlar ekki að spila neitt skotgrafafótbolta þótt að liðið hugsi mikið um varnarleikinn. „Við erum ekki að pakka í vörn og bomba fram. Við ætlum að reyna að spila mjög góðan og árangursríkan bolta. Það hefur gengið betur eftir því sem við höfum spilað fleiri leiki á móti þessum sterku þjóðum. Varnarleikurinn verður samt númer eitt, tvö og þrjú í þessum leikjum," segir Ólína.

Ólína vinnur ófáa boltana og er einn baráttuglaðasti leikmaður liðsins. Hún segir að allir leikmenn íslenska liðsins þurfi að gefa allt í leikinn.

„Það verður mikil barátta í loftinu og ég held að baráttuglaðara liðið vinni þetta. Við erum með stórt hjarta og erum komnar hingað til þess að skapa okkur nafn. Við erum ennþá litið á okkur sem litla liðið enda erum við að koma hingað í fyrsta skiptið. Við lítum ekki á okkur þannig, það er stór munur þar á og það eina sem skiptir máli fyrir okkur," segir Ólína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×