Enski boltinn

Aftur jafnt hjá Liverpool og Everton

AFP

Grannliðin Liverpool og Everton þurfa að mætast öðru sinni í enska bikarnum eftir að liðin gerðu 1-1 jafntefli í hörkuleik í fjórðu umferðinni á Anfield í kvöld.

Varnarmaðurinn öflugi Joleon Lescott kom Everton yfir í leiknum á 27. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið upp úr hornspyrnu Steven Pienaar.

Heimamenn í Liverpool náðu að jafna þegar níu mínútur voru liðnar á síðari hálfleik. Steven Gerrard jafnaði með góðu skoti eftir stórkostlegt spil við Fernando Torres, en markið skrifast að hluta á markvörðinn Tim Howard sem hefði með öllu átt að verja skot fyrirliðans.

Howard bætti að nokkru fyrir mistök sín nokkru síðar þegar hann varði meistaralega frá Gerrard, en sterk vörn Everton náði að halda sínu og því þurfa liðin að mætast öðru sinni - næst á Goodison Park, heimavelli Everton.

Miðjumaðurinn sterki Mikel Arteta hjá Everton gat ekki tekið þátt í leiknum eftir að hafa meiðst á æfingu en athygli vakti að framherjinn Robbie Keane var ekki einu sinni í leikmannahóp Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×