Enski boltinn

Ronaldo er huggulegur - en Gerrard er betri

NordicPhotos/GettyImages

Hollenski þjálfarinn Guus Hiddink segir að Steven Gerrard hefði mun frekar átt skilið að vera kjörinn knattspyrnumaður ársins en Cristiano Ronaldo.

Hiddink er einn virtasti þjálfari Evrópu og er sem stendur landsliðsþjálfari Rússa. Honum þykir glansinn í kring um Ronaldo vera allt of mikill og er sjálfur miklu hrifnari af stríðsmanninum Gerrard hjá Liverpool eftir því sem fram kemur í Daily Mail.

"Ronaldo er sannarlega huggulegur knattspyrnumaður, hann er í fínu formi og hárgreiðsla hans er alltaf í fínu lagi, en mér finnast þessi verðlaun snúast allt of mikið um sjarmann," sagði Hollendingurinn um Portúgalann.

Steven Gerrard varð aðeins tíundi í kjörinu á knattspyrnumanni ársins - langt á eftir stjörnum eins og Ronaldo, Messi og liðsfélaga sínum Fernando Torres hjá Liverpool.

"Gerrard er í miklu meira uppáhaldi hjá mér. Hann hefur yfir að ráða mikilli tækni og er skipulagður og ég dáist að viðhorfi hans og baráttuanda. Þetta hefur allt að gera með ástríðu hans til leiksins. Gerrard er maður sem stuðningsmennirnir tengja við - maður sem ber ást sína á félaginu utan á sér," sagði Hiddink og hélt áfram að dásama enska landsliðsmanninn.

"Það er ekki til annar leikmaður í heiminum sem hefur alla þessa kosti. Hann er leikmaður sem höfðar miklu meira til mín en Ronaldo. Auðvitað er Ronaldo mikill skemmtikraftur, en hjá honum snýst þetta of mikið um glamúr og að setja á svið sýningu. Gerrard og Xavi og Messi eru ekki eins uppteknir af sjálfum sér. Þeir einblína á liðið," sagði Hiddink.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×