Innlent

Árni Johnsen fellur líklega niður um sæti

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Árni Johnsen fellur líklega niður um eitt sæti í kosningunum vegna útstrikana á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hann heldur þó þingsæti. Þúsundir útstrikana voru á kjörseðlum í Reykjavíkurkjördæmunum. Það verður þó ekki ljóst fyrr en eftir helgi hvort að einhverjir færist niður um sæti.

Endanlegur listi þingmanna liggur ekki fyrir fyrr en búið er að fara yfir útstrikanir og endurraðanir á listum. Töluvert var um útstrikanir í Reykjavíkurkjördæmunum, í Suðurkjördæmi og í Suðvesturkjördæmi. Gert er ráð fyrir að það taki að minnsta kosti tvo daga að fara yfir útstrikanir í Reykjavíkurkjördæmunum þar sem fjöldi þeirra kjörseðla sem strikað var yfir á hleypur á þúsundum.

Kjörstjórnirnar hafa ekki tekið saman hvaða nöfn oftast var strikað yfir en samkvæmt heimildum fréttastofu var áberandi meira strikað yfir samfylkingar- og sjálfstæðismenn en aðra, sér í lagi þingmennina Guðlaug Þór Þórðarson og Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.

Í Suðvesturkjördæmi verður farið yfir útstrikanir á morgun. Þar voru einnig þúsundir kjörseðla sem annað hvort strikað var út á eða frambjóðendum endurraða.

Í Suðurkjördæmi er búið að fara yfir útstrikanir á lista Sjálfstæðisflokksins. Þar var hátt í fjórðungi kjörseðla breytt og lítur út fyrir að Árni Johnsen falli niður um eitt sæti. Hann heldur þó sæti á þingi. Enn á eftir að fara yfir útstrikanir hjá Samfylkingunni en nokkuð var um að nafn Björgvins G. Sigurðsson væri strikaður út.

Þá er búið er að fara yfir útstrikanir í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og ljóst að þær hafa engin áhrif á röð þingmanna. Í Norðvesturkjördæmi var nokkuð um að Jón Bjarnason þingmaður Vinstri-grænna og Ólína Þorvarðardóttir verðandi þingmaður Samfylkingarinnar væru strikuð út. Þá strikuðu nokkur hundruð kjósendur þingmennina Kristján Þór Júlíusson, Birki Jón Jónsson og Kristján L. Möller út í Norðausturkjördæmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×