Íslenski boltinn

Auðun: Þurfum að eiga toppleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Auðun Helgason kemur úr leikbanni.
Auðun Helgason kemur úr leikbanni.

„Við þurfum að eiga algjöran toppleik til að komast áfram," segir Auðun Helgason, fyrirliði Fram. Safamýrarliðið mætir Sigma Olomouc frá Tékklandi öðru sinni í kvöld í Evrópudeild UEFA. Leikurinn hefst klukkan 19:00 á Laugardalsvelli.

Fyrri leikurinn sem fram fór í Tékklandi fór 1-1 sem eru frábær úrslit fyrir Framara. Ljóst er að Sigma þarf að skora í kvöld til að komast áfram því með markalausu jafntefli fer Fram áfram á útivallarmarki.

„Það er gott að vera búinn með þetta bann og geta tekið þátt," segir Auðun sem hefur ekki getað tekið þátt í Evrópuævintýri Fram hingað til vegna leikbanns sem hann fékk eftir að hafa fengið rautt spjald í Evrópuleik með FH gegn Bate Borisov 2007.

„Ég var kominn með tvö gul spjöld eftir 40 mínútna leik í Hvíta-Rússlandi og brást illa við því. Ég var svo dæmdur í þriggja leikja bann sem er virkilega strangt og ekki í takt við margt annað. Dómarar eiga það til að vera eitthvað smeykir þegar þeir dæma í Austur-Evrópu, maður hefur fengið að kynnast því."

Auðun hefur þó farið með Fram í útileikina, bæði til Tékklands og til Wales. „Það hefur verið virkilega gaman enda gengið mjög vel. Ég hef reynt að lifa mig inn í þetta og hjálpað eins og ég get. Það var náttúrulega frábært að sjá hve vel liðið spilaði í Tékklandi," segir Auðun.

„Það er algjört lykilatriði í þessum seinni leik að við verðum með öflugan varnarleik. Leikurinn verður líklega þannig að Sigma verður með knöttinn lungan af leiknum og við verðum að koma í veg fyrir að þeir komist í skotfæri. Þeir hafa marga mjög sterka leikmenn. Það er enginn sem gerir kröfu á okkur að komast í næstu umferð svo menn ættu að mæta nokkuð afslappaðir í þennan leik," segir Auðun Helgason.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×