Enski boltinn

Drogba hent úr hópnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luiz Felipe Scolari, knattspyrnustjóri Chelsea.
Luiz Felipe Scolari, knattspyrnustjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Enskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Didier Drogba verði ekki í leikmannahópi Chelsea sem mætir Southend í síðari leik liðanna í ensku bikarkeppninni í kvöld.

Luiz Felipe Scolari sagði í gær að nú þyrftu leikmenn að standa saman og herða sig á erfiðum tímum. Liðið tapaði fyrir Manchester United, 3-0, um helgina og hefur aðeins unnið þrjá af síðustu ellefu leikjum í öllum keppnum.

Svo virðist sem að Drogba sé fyrsta fórnarlambið í áherslubreytingum Scolari en óneitanlega hefur Drogba oft staðið sig betur en á þessari leiktíð.

Nicolas Anelka verður samkvæmt þessu í byrjunarliði Chelsea í kvöld en hann er enn markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar þó svo að hann hafi ekki verið í byrjunarliðinu síðustu þrjá leiki.

„Ég hef skoðað marga leiki með Anelka og síðustu leiki með Drogba. Ég hef mína skoðun og læt hana í ljós á vellinum í hverjum leik," sagði Scolari við enska fjölmiðla.

„Allir leikmenn hafa fengið sín tækifæri. Ég hef gefið hverjum leikmanni að minnsta kosti fimm til sex leiki til að sanna sig."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×