Fótbolti

Ofurlaun Beckham eru ekki há á bandaríska vísu

David Beckham þénar vel í Bandaríkjunum
David Beckham þénar vel í Bandaríkjunum NordicPhotos/GettyImages

David Beckham verður með meira en helmingi hærri laun en næstlaunahæsti leikmaðurinn í MLS deildinni á leiktíðinni þrátt fyrir að missa af meira en helmingi keppnistímabilsins.

Beckham ætlar að halda áfram spila innan um stjörnuvini sína hjá AC Milan fram á sumar til að ganga í augun á Fabio Capello landsliðsþjálfara Englendinga, en verður samt með miklu hærri laun en allir aðrir leikmenn í amerísku deildinni.

Beckham fær 722 milljónir króna í árslaun hjá Galaxy, sem er meira en helmingi hærri upphæð en árslaun Blanco hjá Chicago Fire sem er númer tvö á listanum.

Svíinn Freddie Ljungberg hjá Seattle Sounders er fjórði launahæstur með 145 milljónir króna í árslaun.

Árslaun Beckham eru 43 sinnum hærri en meðallaun í MLS deildinni (16,4 milljónir króna). Lágmarkslaun í MLS eru 3,7 milljónir króna eða 195 sinnum lægri en laun Beckham fær.

Ef einhverjum finnst launatölur Beckham vera háar, eru þær bara klink í samanburði við tekjuhæstu menn í þremur stærstu atvinnudeildum Bandaríkjanna.

Ben Roethlisberger, leikstjórnandi Pittsburgh Steelers sem unnu Ofurskálina í febrúar, er með rúma þrjá milljarða króna í árslaun í NFL deildinni.

Hafnaboltamaðurinn Alex Rodriguez hjá New York Yankees í MLB er líka með þrjá milljarða króna í árslaun og Kevin Garnett hjá NBA meisturum Boston Celtics í körfubolta rakar inn 2,75 milljarða í árslaun.

Hér er reyndar aðeins verið að tala um föst laun sem þessir menn fá frá félögum sínum fyrir að spila, en þarna eru ótaldir auglýsinga- og styrktarsamningar og þar er Beckham fyllilega á pari við þremenningana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×