Íslenski boltinn

Tryggvi: Býst við markaleik í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tryggvi Bjarnason fagnar marki í leik með Stjörnunni.
Tryggvi Bjarnason fagnar marki í leik með Stjörnunni. Mynd/Valli

Tryggvi Bjarnason, varnarmaður í Stjörnunni og fyrrum leikmaður KR, á von á hörkuleik þegar að KR-ingar mæta í Garðabæinn í kvöld.

Tryggvi er uppalinn KR-ingur og lék lengi með liðinu. Hann gekk reyndar í raðir ÍBV þar sem hann lék í tvö sumur, 2003 og 2004, en fór svo aftur á heimaslóðir þar til hann fór í Stjörnuna fyrir tímabilið í fyrra.

„Ætli þetta sé ekki eins og hver annar leikur fyrir mig þó svo að við séum að spila á móti KR. Ég mætti KR með ÍBV á sínum tíma og því er þetta ekkert nýtt fyrir mig."

„En KR-ingar eru búnir að spila vel í sumar, rétt eins og við, og ég á því von á miklum baráttuleik."

KR og Stjarnan eru bæði í toppbaráttunni en eru rétt eins og önnur lið að missa FH langt fram úr sér. Bæði lið mega því helst ekki við því að tapa stigum í kvöld.

„Þetta er þó enginn úrslitaleikur fyrir okkur. Við höfum ekki sett okkur ný markmið og stefnum ennþá að því að gera einfaldlega okkar besta í hverjum leik."

Hann á þó von á markaleik. „Bæði lið hafa verði nokkuð dugleg við að skora í sumar og ég á svo sem ekki von á því að það breytist í kvöld."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×