Erlent

Mjótt á munum í Ísrael

Tzipi Livni vonast eftir sigri í þingkosningunum.
Tzipi Livni vonast eftir sigri í þingkosningunum.

Leiðtogar tveggja stærstu flokkanna á ísraelska þinginu, Knesset, hafa lýst yfir sigri í þingkosningunum sem fram fóru í Ísrael í gær. Búið er að telja þorra atkvæða og eins og staðan er núna hefur miðjuflokkur Tzipi Livni, Kadima, 28 þingsæti en hið hægrisinnaða Likudbandalag 27 þingsæti.

Utanríkisráðherrann Livni hefur lýst því yfir að hún sé reiðubúin til þess að leiða Ísraelsmenn en Benjamin Netanyahu leiðtogi Likud hefur einnig staðhæft að hann hafi farið með sigur af hólmi. Það er því gríðarlega mjótt á mununum en talningamenn eiga enn eftir að telja um eitt prósent atkvæða.

Fari kosningarnar á þessa leið verður þrautin þyngri fyrir Livni að mynda meirihlutastjórn því hægriflokkum óx ásmegin í kosningunum.

Um snemmbúnar kosningar var að ræða. Ehud Olmert, fráfarandi forsætisráðherra, tilkynnti fyrir nokkru að hann ætlaði að víkjaúr embætti og hætta sem leiðtogi Kadima flokksins vegna ásakana um spillingu. Ekki tókst að mynda nýja stjórn og því var boðað til kosninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×