Enski boltinn

Giggs íþróttamaður ársins í Bretlandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Nordic Photos / Getty Images

Ryan Giggs var í gær kjörinn íþróttamaður ársins í Bretlandi en hann hefur átt frábæru gengi að fagna með enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United á árinu.

Alls hefur United unnið enska meistaratitilinn ellefu sinnum með Giggs í liðinu en enginn leikmaður hefur átt betra gengi að fagna enska boltanum frá upphafi.

Kjörið nefnist BBC Sports Personality of the Year og hefur verið við lýði frá 1954. Formúlukappinn Jenson Button varð annar og sjöþrautarkonan Jessica Ennis þriðja í kjörinu. Það er almenningur sem kýs og hlaut Giggs samtals 29,4 prósent atkvæðanna.

Giggs var greinilega snortinn þegar hann tók við verðlaunum sínum í gær. „Ég ólst upp við að horfa á þennan þátt. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hverjir hafa staðið hér og tekið við þessum verðlaunum og standa svo hér sjálfur," sagði Giggs.

Aðeins fjórir aðrir knattspyrnumenn hafa hlotið þessa útnefningu. Það eru þeir David Beckham (2001), Michael Owen (1998), Paul Gascoigne (1990) og Bobby Moore (1966).

Giggs var í apríl kjörinn leikmaður ársins af samtökum atvinnumanna í knattspyrnu í Englandi en hann lék einnig sinn 800. leik með Manchester United á árinu og skoraði sitt 150. úrvalsdeiladarmark.

Spænski kylfingurinn Seve Ballesteros fékk heiðursverðlaunin en hann fylgdist með athöfninni heima hjá sér þar sem hann er enn að jafna sig eftir að hafa lagst undir hnífinn fjórum sinnum eftir að hann greindist með heilaæxli.

Tom Daley, fimmtán ára dýfingarkappi, var besti ungi íþróttamaðurinn og enska landsliðið í krikket fékk liðsverðlaun ársins. Fabio Capello var kjörinn þjálfari ársins og Usain Bolt besti erlendi íþróttamaðurinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×