Innlent

Hafa upprætt 5.000 kannabisplöntur í ár

Kannabishús í Úlfarsárdal Gríðarlega öflugar plöntur voru í þessu parhúsi í Grafarvogi sem útbúið var sem kannabisverksmiðja.Fréttablaðið/Stefán
Kannabishús í Úlfarsárdal Gríðarlega öflugar plöntur voru í þessu parhúsi í Grafarvogi sem útbúið var sem kannabisverksmiðja.Fréttablaðið/Stefán

Frá því um áramót hefur lögreglan lagt hald á um fimm þúsund kannabisplöntur víða um höfuðborgarsvæðið.

Flett var ofan af nýjustu kannabisverksmiðjunni í langri röð slíkra á laugardagskvöld.

Var þar um að ræða framleiðslu í kjallara fokhelds parhúss í Grafarvogi. Brotinn hafði verið veggur á milli íbúðanna tveggja og kjallararnir sameinaðir í stórfelldri kannabisræktun þar sem um 200 stórar plöntur voru í miklum blóma. Þrír menn sem færðir voru til yfirheyrslu munu tengjast annarri kannabisverksmiðju sem uppgötvaðist í Hafnarfirði fyrir nokkrum dögum. Einn eigenda parhússins, 29 ára karlmaður, hefur meðal annars unnið við garðyrkju.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir að á þessu stigi sé erfitt að meta hversu mikið af tilbúinni söluvöru hefði verið mögulegt að framleiða úr þessum mikla fjölda plantna sem upprættar hafa verið á árinu.

„Það eina sem hægt er að segja er að úr þessu væri hægt að vinna magn sem hleypur á hundruðum kílóa,“ segir Karl Steinar.

Á vef SÁÁ er reglulega birt yfirlit yfir götuverð á algengum tegundum fíkniefna. Verðskráin er byggð á upplýsingum frá sjúklingum sem sækja sér meðferð á Vogi.

Samkvæmt henni er eitt gramm af maríjúana sem framleitt er úr kannabisplöntunum nú selt á um 3.400 krónur. Sem dæmi má nefna að hafi verið unnt að framleiða 300 kíló af maríjúana úr plöntunum fimm þúsund yrði markaðsvirði þess efnis um einn milljarður króna. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×