Enski boltinn

Redknapp hvílir lykilmenn gegn United um helgina

NordicPhotos/GettyImages

Harry Redknapp var agndofa í gærkvöld þegar lærisveinar hans í Tottenham voru hársbreidd frá því að detta út úr bikarkeppninni gegn Jóhannesi Karli Guðjónssyni og félögum í Burnley.

Burnley var á leið í úrslitaleikinn þegar nokkrar mínútur voru til leiksloka og liðið yfir 3-0, en Tottenham náði að galdra fram tvö mörk upp úr engu í blálokin og fór því áfram samanlagt 6-4.

Liðið mætir því Manchester United í úrslitaleik deildabikarsins þann 1. mars en þar á Tottenham titil að verja eftir sigur á Chelsea í úrslitaleik á síðustu leiktíð.

"Þetta var ótrúlegt. Ég hélt að við værum dauðir og grafnir í þessum leik, en ég verð að gefa strákunum hrós fyrir að ná að rífa sig upp í lokin," sagði Redknapp.

Nokkrir lykilmenn Tottenham urðu fyrir smávægilegum meiðslum í leiknum í gær og hefur Redknapp ný lýst því yfir að hann ætli sér að hvíla marga lykilmenn þegar lið hans sækir Manchester United heim í enska bikarnum um helgina - liðið verði að setja allan kraft í að ná í stig í deildinni.

Tottenham sækir United heim í enska bikarnum á sunnudaginn og fer svo til Stoke í erfiðan deildarleik á þriðjudagskvöldið.

"Það eru mjög erfiðir leikir framundan og leikurinn gegn United er orðinn aukaatriði fyrir mig. Ef Alex (Ferguson, stjóri United) er að hlusta, ætla ég að senda blandað lið þarna upp eftir um helgina. Ég vona að stuðningsmennirnir taki það ekki nærri sér, en við vorum að spila framlengingu og erum þreyttir - auk þess sem nokkur meiðsli tóku sig upp," sagði Redknapp.

"Þetta eru einu mennirnir sem ég hef úr að moða. Strákarnir sem spiluðu ekki bikarleikinn fá að spila gegn United, því ég má ekki við því að missa fleiri menn í meiðsli," sagði Redknapp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×