Innlent

Þróar fimmhjóla rafmagnsbíl sem ekur til hliðar

Íslenskur hugvitsmaður hefur tryggt sér einkaleyfisvernd á beygjubúnaði rafmagnsbíls sem getur ekið til hliðar inn í bílastæði.

Okkur gengur misjafnlega að leggja í bílastæði, hvað þá ef þau eru lítil og þröng. Og hve mörg okkar gætu ekki óskað sér við slíkar aðstæður að eiga bíl sem gerir svona, ekur til hliðar inn í stæðið. Menn sjá í hendi sér að þannig mætti spara heilmikið pláss í borgum. Hugmyndina fékk flugvirkinn og rafeindavirkinn Ingólfur Harðarson fyrst í klessubíl í tívolí fyrir tuttugu árum og nú er verkefnið komið inn í einkaleyfisferli og nýtur verndar samkvæmt lögum.

Nýjungin felst í búnaðinum í undirvagninum og þá einkum fimmta hjólinu í miðjunni. Drifbúnaðurinn er þar og stýringin jafnframt líka sem þýðir það að bíllinn í raun eltir miðjuhjólið. Þannig sé hægt að keyra í 360 gráður.

Fljótt á litið mætti ætla að fimmta hjólinu væri ofaukið en Ingólfur segir að í rafmagnsbíl einfaldi það bílinn. Hvorki þurfi drifbúnað, hásingar né gírkassa og mótorinn er í felgunni í fimmta hjólinu, sem þýðir að, sögn Ingólfs, að orkutap út í hjól verður í algjöru lágmarki.

Næsta skref er að ræða við risana í bransanum og segir Ingólfur allt tilbúið til að heilsa upp á bílaframleiðendur og fjárfesta. Hann kveðst sannfærður um árangur. Þetta sé það einfalt að fólki finnist það flókið. Einfaldleiki sé alltaf góður.

 

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×