Innlent

Ferð á hagræðingarfund kostaði 1,2 milljónir

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, og Richard M. Daley, borgarstjóri Chicago.
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri, og Richard M. Daley, borgarstjóri Chicago.

Kostnaður borgarinnar vegna ferðar borgarstjóra, formanns borgarráðs og aðstoðarmanns borgarstjóra á ráðstefnu í Bandaríkjunum um lausnir borga vegna kreppunnar var rúmlega 1,2 milljónir króna.

Dagana 27. til 29. apríl 2009 fór fram ráðstefna í Chicago í Bandaríkjunum þar sem umfjöllunarefnið var viðbrögð borga við alþjóðlegum efnahagsþrengingum. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, var aðalræðumaður ráðstefnunnar. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og Magnús Þór Gylfason, aðstoðarmaður borgarstjóra, sóttu ráðstefnuna fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Í framhaldinu óskaði fréttastofa eftir upplýsingum um kostnað borgarinnar við ferðina og tæpu hálfi ári síðar barst loks svar í gær. Heildarkostnaður Reykjavíkurborgar vegna umræddrar ráðstefnu var 1.159.019 krónur eða rúmlega 386.000 krónur á mann.

Í svari frá skrifstofu borgarstjóra segir að Hanna Birna hafi verið beðin um að flytja tvö erindi á ráðstefnunni. Annað um viðbrögð Reykjavíkurborgar við efnahagsþrengingunum og hitt um umhverfismál í borginni.

„Í upphafi stóð til að aðeins einn fulltrúi, þ.e. borgarstjóri færi í boði Chicago til ráðstefnunnar en þegar í ljós kom umfang og mikilvægi hennar fyrir Reykjavíkurborg, var ákvörðun tekin um að með borgarstjóra færu formaður borgarráðs og aðstoðarmaður borgarstjóra.“


Tengdar fréttir

Hanna Birna með Joe Biden á fundi um lausnir vegna kreppunnar

Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra var boðið af borgarstjóra Chicago að taka þátt í alþjóðlegri ráðstefnu í Chicago um lausnir borga vegna efnahagsvandans. Með borgarstjóra í för eru Óskar Bergsson, formaður borgarráðs og Magnús Þór Gylfason, aðstoðarmaður borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×