Íslenski boltinn

Umfjöllun: Stjörnumenn standa undir nafni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tryggvi Bjarnason og samherjar hans fagna marki hans í kvöld.
Tryggvi Bjarnason og samherjar hans fagna marki hans í kvöld. Mynd/Valli

Óhætt er að segja að Stjarnan hafi byrjað af krafti í Pepsi-deild karla. Í kvöld vann liðið 3-0 sigur á ÍBV á heimavelli í nýliðaslag deildarinnar.

Eftir leik kvöldsins er Stjarnan með fullt hús stiga og markatöluna 12-1. Það gerir fjögur mörk að meðaltali í leik og því ekki hægt að segja annað en að Stjörnumenn hafi staðið fyrir skemmtilegum leikjum. Þeir hafa sannarlega staðið undir nafni félagsins.

ÍBV er hins vegar ekki búið að ganga vel í upphafi móts. Liðið enn án stiga og á enn eftir að skora mark.

Stjörnumenn byrjuðu betur í kvöld og fengu nokkur hættuleg færi. Þeir sóttu mikið og voru duglegir að skapa hættu með föstum leikatriðum - annað hvort í hornspyrnum, aukaspyrnum eða stórhættulegum innköstum Steinþórs Freys Þorsteinssonar.

Það var eftir eina af átta hornspyrnum Stjörnunnar í fyrri hálfleik að heimamenn komust yfir. Eyjamenn klikkuðu á varnarleiknum og skildu Tryggva Bjarnason eftir einan sem skallaði knöttinn í markið eftir hornspyrnu Steinþórs Freys.

Eyjamenn fengu þó sín færi og tvö mjög góð færi í seinni hálfleik. En í bæði skiptin var Bjarni Þórður Halldórsson markvörður vandanum vaxinn. Fyrst varði hann skot Augustine Nsumba og svo varð hann fyrri til að ná í boltann er varamaðurinn Ajay Leitch-Smith var við það að komast einn inn fyrir vörn heimamanna.

Markaskorarinn Tryggvi Bjarnason hafði farið af velli í hálfleik, væntanlega vegna meiðsla, og kom Arnar Már Björgvinsson inn í hans stað. Hann kom einnig inn á sem varamaður í síðari hálfleik Stjörnunnar og Þróttar og þá skoraði hann tvö mörk.

Hann endurtók þann leik í kvöld. Fyrst eftir góða sókn þar sem hinn öskufljóti Halldór Orri Björnsson bar boltann upp vinstri kantinn og kom honum fyrir markið. Þar hafði Arnar betur í baráttunni við Albert Sævarsson, markvörð ÍBV, og kom boltanum í netið.

Albert gerði sig svo sekan um slæm mistök í blálok leiksins er hann fékk boltann frá varnarmanni sínum. Albert var ekki nógu fljótur að losa sig við boltann, lét Arnar stela honum af sér og þurfti þá síðarnefndi aðeins að ýta boltanum yfir línuna.

Niðurstaðan því góður 3-0 sigur Stjörnunnar en þess ber að geta að bæði karla- og kvennalið félagsins tróna nú á toppi sinna deilda - Pepsi-deildar karla og Pepsi-deildar kvenna.

Stjarnan - ÍBV 3-0

1-0 Tryggvi Bjarnason (35.)

2-0 Arnar Már Björgvinsson (62.)

3-0 Arnar Már Björgvinsson (86.)

Stjörnuvöllur. Áhorfendur: 1011

Dómari: Magnús Þórisson (6)

Skot (á mark): 10-8 (5-3)

Varin skot: Bjarni 3 - Albert 2.

Horn: 10-3

Aukaspyrnur fengnar: 16-19

Rangstöður: 2-2



Stjarnan (4-4-2):


Bjarni Þórður Halldórsson 7

Guðni Rúnar Helgason 8

Tryggvi Bjarnason 7

(46. Arnar Már Björgvinsson 8)

Daníel Laxdal 7

Hafsteinn Rúnar Helgason 6

Jóhann Laxdal 6

Birgir Hrafn Birgisson 6

Björn Pálsson 6

Halldór Orri Björnsson 7

Steinþór Freyr Þorsteinsson 8 - maður leiksins

(89. Andri Sigurjónsson -)

Þorvaldur Árnason 6

(72. Magnús Björgvinsson -)

ÍBV (4-5-1):

Albert Sævarsson 6

Arnór Eyvar Ólafsson 5

Yngvi Borgþórsson 6

Matt Garner 3

Þórarinn Ingi Valdimarsson 5

Augustine Nsumba 5

(88. Gauti Þorvarðarson -)

Tonny Mawejje 6

Bjarni Rúnar Einarsson 4

(55. Ajay Leitch-Smith 5)

Pétur Runólfsson 4

Christopher Clements 5

Viðar Örn Kjartansson 4

(75. Elías Ingi Árnason -)

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis: Stjarnan - ÍBV.


Tengdar fréttir

Heimir: Tek ofan fyrir Stjörnunni

Heimir Hallgrímsson var eðlilega ekki ánægður með úrslit leiks sinna manna í ÍBV gegn Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

Steinþór: Alvöru próf í næsta leik

Steinþór Freyr Þorsteinsson átti glimrandi góðan leik fyrir Stjörnuna sem vann 3-0 sigur á ÍBV í 3. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×