Íslenski boltinn

Heimir: Tek ofan fyrir Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson var eðlilega ekki ánægður með úrslit leiks sinna manna í ÍBV gegn Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

Stjarnan vann 3-0 sigur á Eyjamönnum sem þýðir að ÍBV er enn án stiga og hefur þar að auki ekki enn skorað mark.

„Við lögðum upp með að bakka og gefa þeim ekki svæði á bak við vörnina okkar," sagði Heimir. „Það gekk þolanlega vel framan af og þeir voru að gefa langar sendingar fram á völlinn sem voru ekki að gefa þeim mikið. En svo koma markið úr föstu leikatriði sem breytti miklu."

„Við þurftum að gera nokkrar breytingar á okkar leik sem við gerðum snemma í seinni hálfleik. Þá settum við fleiri menn í sóknina á kostnað varnarleiksins."

„Það er þeirra leikur að sækja hratt á andstæðinginn og þeir eru góðir í því. Ég tek því ofan fyrir Stjörnunni."

Hann segir margt sem þurfi að laga í leik sinna manna. „Við þurfum að spila hraðar upp völlinn og við höfum verið að tapa boltanum oft og klaufalega. Það eykst svo eftir því sem sjálfstraustið minnkar. En við vissum vel að við myndum ekki vinna alla leiki og það þýðir ekkert að fara að grenja þó svo að við höfum tapað þremur leikjum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×