Innlent

Ólíklegt að Finnar verði með

Loftrýmiseftirlit Dönsk orrustuþota á eftirlitsflugi. Rætt er um að finnskar og sænskar taki líka þátt.nordicphotos/afp
Loftrýmiseftirlit Dönsk orrustuþota á eftirlitsflugi. Rætt er um að finnskar og sænskar taki líka þátt.nordicphotos/afp

Ólíklegt er að finnskar orrustuþotur muni taka þátt í að sinna loftrýmiseftirliti yfir Íslandi. Að því er finnska dagblaðið Helsingin Sanomat hefur eftir heimildarmönnum í finnska stjórnarráðinu eru efnahagslegar, pólitískar og lagalegar hindranir fyrir slíkri þátttöku. Upp á henni var stungið í tillögum sem Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, vann fyrir Norrænu ráðherranefndina og kynntar voru í febrúar.

„Þetta verkefni væri einum of langt gengið. Jafnvel þótt nægar fjárveitingar væru fyrir hendi væru pólitísk atriði í veginum,“ hefur blaðið eftir einum heimildarmanninum.

Í Stoltenberg-skýrslunni er nefnt að meðal þess sem Norðurlöndin gætu gert til að efla samstarf sitt og samheldni á sviði öryggis- og varnarmála væri að Norðurlöndin fjögur sem reka flugheri tækju öll þátt í loftrýmiseftirliti yfir Íslandi, sem annars er skipulagt af Atlantshafsbandalaginu. Að Svíar og Finnar, sem eiga ekki aðild að NATO, tækju þátt í því væri enn einn áfanginn að því að binda báðar þjóðir nánari böndum við bandalagið.

Ekki er vænst formlegrar niðurstöðu í málinu fyrir hönd finnskra stjórnvalda fyrr en í lok maí.- aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×