Innlent

Bankastjóri tjáir sig ekki um fjársvikakærur

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar
Finnur Sveinbjörnsson.
Finnur Sveinbjörnsson.

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, ætlar ekki að tjá sig um lögreglukæru sem beinist gegn honum, fyrrverandi stjórnendum Kaupþings og nýja og gamla bankanum.

Fréttastofa sagði í fyrrakvöld frá hjónum í Kópavogi sem hafa kært gamla og nýja Kaupþing og fyrrverandi og núverandi stjórnendur bankans til efnahagsbrotadeildar lögreglu. Kært er fyrir stórfelld efnahagsbrot á grundvelli hegningarlaga og sagt að stjórnendur bankans hafi vísvitandi og með skipulögðum hætti stundað fjársvik gegn almenningi með veitingu gengistryggðra krónulána. Hjónin tóku lán hjá Kaupþingi sem hefur tvöfaldast á tveimur árum. Nú skulda þau á sjötta tug milljóna.

Lögmaður hjónanna sagði í fréttum okkar í gær að þáttur Finns Sveinbjörnssonar núverandi bankastjóra væri sérstaklega ámælisverður þar sem hann hafi tekið þátt í að semja lög sem bönnuðu gengistryggingu lána. Nú hafi hann tekið við keflinu frá gamla Kaupþingi og innheimti lánin af fullum þunga í andstöðu við lög.

Fréttastofa hefur síðan í gær reynt að fá viðbrögð Finns við kærunni og gagnrýni lögmannsins. Hann hefur hins vegar ákveðið að tjá sig ekki um málið, heldur sendi bankinn frá sér yfirlýsingu þar sem segir að löglegt hafi verið að veita lán í erlendum gjaldmiðli. Fréttastofu er hins vegar ekki kunnugt um að gengistryggð lán hafi verið greidd út í jenum, dollurum eða frönkum né heldur að þeir lánasamningar hafi almennt verið í upphæðum erlendra gjaldmiðla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×