Enski boltinn

68 milljarða sjónvarpssamningar í uppnámi

NordicPhotos/GettyImages

Sjónvarpsstöðvarnar Setanta og ITV hafa farið þess á leit við enska knattspyrnusambandið að endurskoða risastóra samninga sem gerðir hafa verið um sýningarréttinn á enska boltanum.

Það er breska blaðið Daily Telegraph sem greinir frá þessu, en ástæðuna má rekja til fjármálakrísunnar sem ríkir í heiminum.

Setanta og ITV gerðu samninga við enska knattspyrnusambandið sem munu færa sambandinu um 68 milljarða króna í tekjur.

Eftir því sem fram kemur í Daily Telegraph hafa báðar sjónvarpsstöðvarnar farið þess á leit við sambandið að samningsákvæðum verði breytt vegna ástandsins í fjármálaheiminum.

Samkvæmt samningum ættu stærstu fjárhæðirnar í samningunum að koma til greiðslu snemma á samningstímanum, en sjónvarpsstöðvarnar hafa beðið um að greiðslunum verði dreift á lengri tíma.

Talsmenn beggja sjónvarpsstöðvanna ítrekuðu í samtali við blaðið að greiðslur stöðvanna til enska knattspyrnusambandsins hefðu ekki tafist til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×