Enski boltinn

Hvað verður um Ledley King?

Ledley King getur ekki hrist af sér meiðsladrauginn
Ledley King getur ekki hrist af sér meiðsladrauginn NordicPhotos/GettyImages

Ledley King, fyrirliði Tottenham, viðurkennir að samningsstaða hans hjá félaginu kunni að vera óráðin í ljósi meiðslasögu hans undanfarin ár.

Þessi sterki varnarmaður á 18 mánuði eftir af samningi sem færir honum 50,000 pund í vikulaun og er hann einn launahæsti leikmaður félagsins.

Hann hefur hinsvegar verið hálfur maður vegna meiðsla undanfarin tímabil og því verður að teljast ólíklegt að hans bíði jafn góður samningur þegar hann sest næst að borðinu með forráðamönnum félagsins.

"Ef ég á að vera hreinskilinn er ég nú bara að einbeita mér að því að klára þessa leiktíð. Mig langar að spila eins marga leiki og ég get og hitt kemur að sjálfu sér," sagði King í samtali við Sun, en eins og flestir vita er stjörnum prýtt lið Tottenham í bullandi fallhættu eftir grátlega leiktíð.

King hefur ekki geta æft almennilega með liðinu síðan í janúar vegna þrálátra meiðsla, en hann stóð vaktina með sóma í tvær klukkustundir í úrslitaleiknum í deildabikarnum um síðustu helgi.

Þessi frammistaða hans vakti hrifningu knattspyrnustjórans Harry Redknapp. "Ledley er ótrúlegur náungi. Hann spilaði allan úrslitaleikinn en æfði ekkert fyrir hann og má raunar ekki æfa neitt. Það er ekkert annað en ótrúlegt að maður skuli spila svona leik við þessar aðstæður og fá ekki einu sinni krampa," sagði Redknapp.

Talið er að til greina komi að næsti samningur hins 28 ára gamla King við Tottenham miðist við það hve marga leiki hann nær að spila með liðinu, en hann spilaði aðeins tíu leiki með Spurs á síðustu leiktíð og nítján það sem af er þessari leiktíð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×