Enski boltinn

Ítalirnir velta sér upp úr vafaatriðum

Briatore hefur ákveðnar skoðanir á knattspyrnumálum í heimalandi sínu
Briatore hefur ákveðnar skoðanir á knattspyrnumálum í heimalandi sínu NordicPhotos/GettyImages

Flavio Briatore, einn af eigendum knattspyrnuliðsins QPR á Englandi, segir fáránlegt hve uppteknir landar hans á Ítalíu séu af því að velta sér upp úr dómgæslu í A-deildinni.

Briatore, sem einnig er með puttana í liði Benetton í Formúlu 1, segir að Ítalir ættu að eyða minna púðri í að kvarta yfir dómurum og einblína heldur á leikinn sjálfan.

Máli sínu til stuðnings benti Briatore á fjörugan 3-3 leik Inter og Roma í ítölsku A-deildinni um síðustu helgi, þar sem umdeildur vítaspyrnudómur var þungamiðjan í umfjöllun um leikinn.

"Þeir töluðu um vítaspyrnu Inter í tvo tíma eftir leikinn án þess að minnast á leikinn sjálfan, sem reyndar var frábær leikur. Svona lagað á sér ekki stað á Englandi, við vitum varla hvað dómararnir heita hérna. Hér eru menn ekki að velta sér upp úr endursýningum tímunum saman," sagði Briatore í samtali við Gazzetta dello Sport á Ítalíu.

"Það er ekki eins og fólk geri ekki mistök á Englandi, en hérna er þetta ekki jafn mikið mál. Heldur ekki í Frakklandi eða á Spáni, þetta er bara svona á Ítalíu. Stjórar á Englandi eru farnir af leikvelli eftir korter, en á ítalíu þurfa þeir að svara spurningum um vítaspyrnudóma í tvo klukkutíma," sagði Briatore.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×