Innlent

Íbúar 30 húsa á Siglufirði fá enn ekki að snúa heim

Nágrenni Siglufjarðar.
Nágrenni Siglufjarðar.

Íbúar úr 30 húsum, sem voru rýmd á Siglufirði í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu, fá ekki að snúa til síns heima fyrr en snjóflóðaeftirlitsmenn og Veðurstofan hafa metið snjóalög eftir að bjart er orðið.

Það er því enn hættusvæði þar í bæ og sömuleiðis á Ólafsfirði þar sem dvalarheimilið Hornbrekka er. Vistmenn þar voru fluttir til innanhúss, á öruggan stað í húsinu. Enn er óvissustig á norðanverðum Vestfjörðum en á öllum þessum stöðum er veðrið gengið niður. Það sama á við um norðausturhornið, en þar er víða mikil ófærð. Þar hafa bændur sumstaðar neyðst til að hella niður mjólk, þar sem þeir hafa ekki átt trygg ílát undir hana, en mjólkurbílar náðu að safna töluverðri mjólk seint í gærkvöldi, eftir því sem veður skánaði og vegir opnuðust.

Ekki er enn vitað hvar eða hvort snjóflóð féllu í nótt, en ekki þótti ástæða til að manna snjóflóðavakt á Veðurstofunni í nótt. Aðstæður verða alls staðar metnar í birtingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×