Innlent

Þórunn og Þorgerður fengu flestar útstrikanir

Flestir strikuðu yfir nöfn Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í Suðvesturkjördæmi í kosningunum um helgina eða um eitt þúsund sinnum. Útstrikanirnar hafa þó engin áhrif á röð þingmanna í kjördæminu. Reyna á að ljúka við að fara yfir útstrikanir í Reykjavíkurkjördæmunum í dag.

Kjörstjórn í Suðvesturkjördæmi hefur lokið við að fara yfir útstrikanir í listum í kosningunum og hafa þær engin áhrif á röð þingmanna í kjördæminu. Flestir strikuðu yfir nafn Þórunnar Sveinbjarnardóttur þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi umhverfisráðherra eða hátt í tólf hundruð sinnum út. Hátt í tvö þúsund manns hefðu hins vegar þurft að strika nafn hennar út svo hún færðist neðar á lista. Þá strikuðu rúmlega níu hundruð yfir nafn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hátt í sautján hundruð manns hefðu þurft að strika yfir nafnið svo hún færðist neðar.

350 strikuðu Bjarna út

Tæplega þrjú hundruð og fimmtíu strikuðu yfir nafn Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins og rúmlega þrjú hundruð fyrir nafn Árna Páls Árnason oddvita Samfylkingarinnar í kjördæminu. Rúmlega þrjú hundruð og fimmtíu strikuðu yfir nafn Sivjar Friðleifsdóttur sem leiddi lista Framsóknarflokksins í kjördæminu og tæplega hundrað og fimmtíu yfir nafn Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem skipaði efsta sæti hjá Vinstri-grænum. Þá strikuðu um hundrað og fimmtíu yfir nafn Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra.

Þegar hefur komið í ljós að í Suðurkjördæmi færist einn þingmaður niður um eitt sæti vegna útstrikana. Það er Árni Johnsen. Sjálfstæðisflokkurinn á þrjá þingmenn í kjördæminu og var Árni annar þingmaður flokksins og heldur því sæti á þingi.

Mikið var um útstrikanir í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og hefur því tekið töluverðan tíma að fara yfir þær. Búist er við að það klárist í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×