Innlent

Lögreglan hafði afskipti af hlutverkaleikurum

Larp. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Larp. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.

Rétt fyrir klukkan eitt í nótt barst tilkynning frá Sjúkrahúsinu á Akureyri um mikinn hávaða sem bærist frá Lystigarðinum í bænum.

Lögreglumenn fóru á staðinn og heyrðu þegar mikil öskur og angistarvein berast úr skóginum. Skömmu seinna sáu þeir bregða fyrir mannveru í tígrisdýrafeldi og síðan sást annar maður laumast um, ber að ofan, málaður í andlitinu og með sverð í hönd.

Fleiri skuggar sáust á ferli milli trjánna. Lögreglumennirnir afréðu að nálgast þessar verur, enda jarðbundnir menn og vantrúaðir á að þarna færu fulltrúar af öðrum heimi.

Tígri og málaði maðurinn reyndust enda hinir viðræðubestu og lögðu þegar niður plastvopnin sín þegar þeir urðu lögreglunnar varir.

Kom á daginn að þarna voru venjulegir framhaldsskólanemar af holdi og blóði.

Félagar þeirra tóku nú að gefa sig fram hver af öðrum og voru í hinum ýmsu múnderingum og með vopn úr frauðplasti og fleiru. Alls voru þetta 10-15 skrípi og gáfu þá skýringu að þeir væru að ,,larpa", það er í hlutverkaleik.

Lögreglan hefði reyndar truflað lokaorrustuna.

Þeir féllust á að geyma hana til betri tíma og viðurkenndu að uppátækið hefði getað komið grandalausum vegfarendum nokkuð í opna skjöldu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×