Erlent

Óhjákvæmilegt að Ísraelar ráðist á Íran

Óli Tynes skrifar
Ísraelskar F-15 orrustuþotur.
Ísraelskar F-15 orrustuþotur.

Hvorki Vesturlönd né Ísrael trúa því að kjarnorkuáætlun Íraks sé friðsamleg. Síðast í dag var uppýst að Íranar væru að gera tilraunir með nýja tegund kjarnaodda til þess að setja í eldflaugar.

Þetta hefur enn orðið til þess að ýta undir vangaveltur um árás á Íran og þá sérstaklega af hálfu Ísraela.

Danny Ayalon aðstoðar utanríkisráðherra sagði í samtali við Sky fréttastofuna að Íranar væru aðeins að kaupa sér tíma með viðræðum við Vesturlönd.

Á meðan rembdust þeir eins og rjúpan við staurinn við að koma sér upp kjarnorkusprengjum.

Engin blekking

Ayalon sagði að stefna Ísraels um hugsanlega árás væri engin blekking. Ekki kæmi til greina að búa við það að Íran réði yfir kjarnorkuvopnum.

Dr. Ronen Bergman höfundur bókarinnar „Leynistríðið við Íran" segir að ef Íranar gefi ekki skyndilega eftir í kjarnorkubrölti sínu sé óhjákvæmilegt að Ísrael geri árás á kjarnorkuver þeirra.

Árásin á Írak

Alveg eins og þeir árið 1981 réðust á kjarnorkuver sem Saddam Hussein var að reisa með aðstoð Frakka í Írak. Saddam sagði að fyrsta arabiska kjarnorkusprengjan yrði smíðuð þar.

Ísraelar lögðu kjarnorkuverið í rúst og hlutu fyrir það fordæmingu Sameinuðu þjóðanna og voru sérstaklega Frakkar trylltir af bræði.

Þegar gerð var innrás í Írak árið 1990 til þess að hrekja Íraka frá Kúveit voru menn þó býsna fegnir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af kjarnorkusprengjum Saddams.

Árás yrði dýrkeypt

Ísraelar vita vel að þeir eiga ekki von á góðu ef þeir ráðast á Íran. Þeir mega eiga von á gagnárásum bæði frá Írönum og bandamönnum þeirra í Hizbolla og Hamas. Auk þess yrðu gerðar hryðjuverkaárásir út um allan heim.

Þeir myndu einnig eiga á hættu að missa bæði menn og flugvélar. Þótt ólíklegt sé að íranski flugherinn standist þeim ísraelska snúninginn eiga íranar gríðarlega mikið af loftvarnaeldflaugum og loftvarnabyssum sem þeir hafa sett upp við líklegustu skotmörkin.

Reiðubúnir að taka afleiðingunum

Sjálfsagt myndu Sameinuðu þjóðirnar svo fordæma Ísrael eins og venjulega. Sérfræðingar í málefnum Miðausturlanda telja þó að Ísraelar séu reiðubúnir að þola allt þetta frekar en eiga á hættu að Íran verði kjarnorkuveldi.

Það er jú margyfirlýst stefna Írana að þurrka Ísrael út af landakortinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×