Erlent

Öryggisvörður hvarf með 10 milljónir evra

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Lögregla í Frakklandi leitar nú dyrum og dyngjum að öryggisverði sem gerði sér lítið fyrir og ók á brott í peningaflutningabíl með 10 milljónir evra.

Það var í gærmorgun sem bíllinn gufaði upp, stútfullur af peningum en áætlað er að rúmlega 10 milljónir evra, jafnvirði tæplega 1,9 milljarða króna, hafi verið í öryggishólfi bílsins. Af þriggja manna áhöfn fóru tveir öryggisvarðanna inn í banka til að ná í peninga sem verið var að flytja fyrir Frakklandsbanka í borginni Lyon. Þeir ráku upp stór augu þegar þeir komu út aftur þar sem bíllinn var á bak og burt og með honum félagi þeirra, ökumaðurinn.

Uppi varð fótur og fit og hóf lögregla þegar víðtæka leit að bílnum en slökkt hafði verið á GPS-staðsetningartæki og síma í honum. Þegar bíllinn fannst loksins á afviknum stað vantaði tvennt í hann, bílstjóra og 10 milljónir evra. Hvorki hefur fundist tangur né tetur af bílstjóranum enn þá og segir Xavier Richaud saksóknari í samtali við fjölmiðla að eðlilega falli grunur á bílstjórann. Sá er um fertugt og þegar farið var að kanna málið nánar reyndist hann hafa tæmt bankareikninga sína daginn áður svo væntanlega eru orð saksóknarans ekki alveg úr lausu lofti gripin.

Nú er bara að bíða eftir því að franskur öryggisvörður með tæpa tvo milljarða í vasanum dúkki upp á einhverri paradísareyju sunnarlega á hnettinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×