Innlent

Átelur stjórnvöld fyrir sambandsleysi

Gunnlaugur stefánsson
Gunnlaugur stefánsson
Alcoa er eina fyrirtækið sem lýst hefur áhuga á að fjárfesta í orkufrekum iðnaði í Norðurþingi.

Þetta segir Gunnlaugur Stefánsson, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, og átelur stjórnvöld fyrir að hafa ekki samband við heimamenn. „Það er ekki talað við okkur, bara um okkur," segir hann.

Viljayfirlýsing Alcoa, Norðurþings og ríkisstjórnarinnar um byggingu álvers á Bakka við Húsavík rennur að óbreyttu út í næstu viku. Fram hefur komið að VG er andsnúið framlengingu viljayfir­lýsingarinnar en stuðningur er við málið innan Samfylkingarinnar. Í yfirlýsingunni er kveðið á um áframhaldandi rannsóknir á hagkvæmni þess að reisa og reka álverið.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefur ítrekað sagst frekar vilja sjá orkuna í Þingeyjarsýslu nýtta til annarrar atvinnustarfsemi en álvers.

Gunnlaugur furðar sig á endurteknum ummælum Steingríms í þá veru enda hafi ekki einn einasti aðili gefið sig á tal við sveitarstjórnina og lýst yfir áhuga á að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

„Ég hef hins vegar heyrt af mörgum sem vilja fá þessa orku annað," segir hann og bendir á að orkuþörf álvers í Helguvík og hugsanlegra gagnavera á suðvesturhorninu hafi ekki verið fullnægt. - bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×