Innlent

Yfir 50 reglubrjótar ganga nú lausir

Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Steinunn Valdís Óskarsdóttir
Ríflega fimmtíu manns sem hafa brotið af sér í samfélagsþjónustu bíða þess nú að komast aftur í afplánun. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi fangelsismálayfirvalda með allsherjarnefnd í gær.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður nefndarinnar, segir fundinn hafa verið góðan og gagnlegan. Hún segir ljóst að huga þurfi að lausn langtímavandans í fangelsismálum á Íslandi. Leiguhúsnæði sem auglýst hefur verið eftir undir á annan tug fangaklefa sé einungis lausn til bráðabirgða, en deginum ljósara sé að til langframa þurfi að rísa hér annað fangelsi.

Alls bíða nú um 240 manns eftir að afplána fangelsisdóma. Þá eru um 1.600 manns sem bíða afplánunar vegna fésekta. Útistandandi sektir sem menn vilja sitja af sér nema um 1,9 milljörðum króna.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir algengt að þegar þeir sem skulda sektir eru loks boðaðir í afplánun sé sú tilhneiging rík að sektirnar séu þá greiddar, til að menn komist hjá því að sitja inni. Ef aldrei gefst færi á að boða þá sökum plássleysis skili sektirnar sér alls ekki, og þær fyrnist að lokum flestar. Þannig verði ríkissjóður af fé sem slagi hátt í kostnaðinn við byggingu nýs fangelsis.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×