Enski boltinn

Van Persie frá í fimm mánuði - sér ekki eftir legkökunuddinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robin van Persie í leik með Arsenal.
Robin van Persie í leik með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Robin van Persie verður líklega frá keppni í fimm mánuði þar sem hann þarf að fara í aðgerð vegna ökklameiðsla sinna.

Van Persie meiddist í leik með hollenska landsliðinu fyrr í mánuðinum og var upphaflega búist við því að hann yrði frá í sex vikur.

„Robin mun fara í aðgerð í Amsterdam í næstu viku til að endurbyggja liðböndin í ökklanum," sagði í tilkynningu frá Arsenal um málið og sagði að hann yrði um 4-5 mánuði að jafna sig.

Það var fyrst í gær að ökklinn var settur í gifs og sagði van Persie að hefði hann vitað hversu alvarleg meiðslin væru hefði hann farið strax í uppskurðinn.

Eins og frægt er orðið fór van Persie í hið svokallaða legkökunudd í Serbíu eftir að hann meiddist og sér hann ekki eftir því.

„Hún (læknirinn) hefur meðhöndlað leikmenn víða að með góðum árangri. Nokkrir leikmenn Liverpool og Chelsea fóru til hennar og nutu góðs af því," sagði van Persie.

Hann sagði að legkökunuddið hafi reynst vel þegar um rifna vöðva eða trosnuð liðbönd væri að ræða. „En liðböndin í ökklanum voru algerlega slitin. Við vitum því nú að meðferðin í Serbíu hefði því hvort eð er aldrei virkað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×