Erlent

Breskir bankastarfsmenn bálreiðir

MYND/AP

Starfsfólk breskra banka kom saman fyrir utan þinghúsið í Lundúnum í dag til að mótmæla vinnuaðferðum bankastjórnenda fyrir alheimskreppu. Þeir hafi komið fjármálastofnunum á kaldan klaka með áhættusækni sinni og þar með stefnt störfum undirmanna sinna í hættu. Á meðan hafi þeir síðan fengið himin háar bónusgreiðslur.

Mótmælin hófust um leið og stjórnendur tveggja banka sem breska ríkið hefur tekið yfir mætti fyrir þingnefnd til að svara spurningum um vanda breskra banka. Það voru stjórnendur Royal Bank of Scotland (RBS) og Halifax Bank of Scotland (HBOS) en breska ríkið hefur tekið yfir stóran hluta þessara banka til að forða þeim frá gjaldþroti.

Breskir bankar hafa sagt um 14 þúsund starfsmönnum upp störfum síðan alheimskreppan skall á síðastliðið haust. Alþjóðabankar með rekstur í Bretlandi hafa einnig sagt upp mörg þúsund starfsmönnum.

Cath Speight, talsmaður félags bankamanna í Bretlandi, sagði það reita skjólstæðinga sína til reiði að vita til þess að stjórnendur hafi fengið háar bónusgreiðslur síðustu fimm til sex árin meðan ákvarðanir hafi verið teknar sem hafi siglt öllu í strand. Stjórnendurnir fari varla á atvinnuleysisbætur nú þegar harðni á dalnum en það geri láglaunafólk í fjármálageiranum sem hún tali fyrir. Þessir starfsmenn viti ekki hvernig þeir eigi að borga af lánum sínum nú þegar þeir hafi misst vinnuna án þess að það sé beinlínis þeim sjálfum að kenna.

Ofan á allt fái þessir starfsmenn svo ekki lágar bónusgreiðslur á meðan stjórnendur sem hverfi af vettvangi fái starfslokagreiðslur.

Speight segir vaxandi reiði í bresku samfélagi þrátt fyrir afsökunarbeiðni stjórnenda RBS og HBOS fyrir þingnefnd í morgun. Breska ríkið þurfi nú að tryggja að störf í ríkisvæddum bönkum megi ekki útvista til útlanda. Tryggja þurfi að störf í breskum bönkum verði áfram unnin í Bretlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×