Innlent

Meint ólöglegt lán rannsakað

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsakar meint ólöglegt fimm milljarða króna lán FL Group til Hannesar Smárasonar, fyrrum forstjóra félagsins. Lánið er talið hafa verið notað til kaupa á Sterling-flugfélaginu árið 2005. Einnig er til rannsóknar hvort Hannes hafi orðið uppvís af umboðssvikum.

Þetta kemur fram í viðtali vefútgáfu danska blaðsins Berlingske Tiderne við Helga Magnús Gunnarsson, saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra.

Efnahagsbrotadeildin og fulltrúar á vegum sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins gerðu í gær húsleit hjá lögmannastofunni Logos og á heimili Hannesar Smárasonar. Rannsókn efnahagsbrotadeildar er talin tengjast kaupunum á Sterling, auk fleiri meintra brota á skattalögum.

Húsleit embættis sérstaks saksóknara er liður í rannsókn á kaupum eignarhaldsfélags í eigu Sjeiks Mohamed Bin Khalifa Al-Thani frá Katar á fimm prósenta hlut í Kaupþingi.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist fagna því að vasklega sé gengið til verks í rannsóknum sem þessum.

- kg.


Tengdar fréttir

Steingrímur fagnar vasklegri framgöngu

„Ég fagna því að rannsóknarmenn séu að ganga vasklega til verks í þessum málum. Það hefur verið mikil eftirspurn eftir því að þessari rannsóknarvinnu miðaði áfram,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og fulltrúar á vegum sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins gerðu í gær húsleit hjá lögmannastofunni Logos.

Húsleit hjá Hannesi Smárasyni

Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra gerði húsleit að Fjölnisvegi 9 og 11 í morgun en þau hús eru skráð á eiginkonu Hannesar Smárasonar annarsvegar og hinsvegar á eignarhaldsfélag sem er í eigu Hannesar. Einnig var gerð húsleit hjá lögfræðistofunni Logos í tengslum við málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×